Kia í efsta sæti hjá J.D. Power

Kia er efst í nýrri áreiðanleikakönnun J.D. Power fyrir árið 2016 í Bandaríkjunum. Á lista J.D. Power kemur í ljós að Kia bílar bila minnst allra bíla á bandaríska markaðnum. Kia var í öðru sæti á eftir Porsche í fyrra en þessir bílaframleiðendur skipta nú um sæti og Kia tekur toppsætið en þýski bílaframleiðandinn fellur nú í annað sætið. Hyundai er í þriðja sæti, Toyota varð í því fjórða og BMW í fimmta sæti.  

Það að skora hátt á lista J.D. Power eykur mikið tryggð bíleigenda og þeir hafa meiri tilhneygingu til að kaupa aftur bíla frá þeim framleiðendum. Könnun J.D. Power byggir á svörum 80.000 bíleigenda, nú eigendum bíla af árgerð 2016 og þeir verða að hafa átt bíla sína í 90 daga eða meira. Könnunin fór fram frá febrúar til maí á þessu ári.

Kia Sportage og Kia Soul voru í efstu sætum í sínum flokkum og Kia Rio og Kia Sorento voru í topp 3 sætunum í sínum flokkum. Þetta er í fyrsta skipti í 27 ár sem lúxusbílamerki er ekki í efsta sæti listans hjá J.D. Power sem gerir árangurinn enn glæsilegri fyrir Kia.