Go to content

Fréttir

Askja opnar nýtt og fullkomið húsnæði fyrir KIA

Askja opnar nýtt og fullkomið húsnæði fyrir KIA

07-01-2019

Laugardaginn 12. janúar næstkomandi flytur Askja, sölu og þjónustu sína fyrir Kia bíla í nýtt og glæsilegt, sérhannað húsnæði að Krókhálsi 13. Sérstök opnunarhátíð verður haldin á milli klukkan 10-16.

Nánar um sýninguna

Síðustu ár hefur Kia verið á Krókhálsi 11 þar sem Bílaumboðið Askja er til húsa. Þar er einnig að finna söludeild fólksbíla Mercedes-Benz sem fá nú enn meira pláss og verkstæði fyrir Mercedes-Benz fólks- og atvinnubifreiðar. Askja er því með þessu að aðskilja vörumerkin sín tvö bæði í sölu og þjónustu. „Síðustu 3 ár hefur Kia verið annað mest selda bílamerkið á Íslandi og hefur náð alveg ótrúlegum árangri bæði hér heima og erlendis. Þetta hefur verið lengi í deiglunni og orðið tímabært að gefa Kia meira svigrúm sem og Mercedes-Benz, en bæði merkin hafa náð góðum árangri hér á landi“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

Nýja Kia húsið er um 4.000 fermetrar að stærð en þar má finna aðstöðu fyrir glæsilegan sýningarsal fyrir nýja bíla, forgreiningu, söluskoðanir, hraðþjónustu og fullkomið bílaverkstæði með 18 vinnustöðvum. Húsið er sérhannað sérstaklega með tilliti til bílaumboðs. Það stendur svo til að hafa 30 rafbílastæði í kringum húsið fyrir viðskiptavini og starfsfólk, enda er Kia leiðandi í sölu rafbíla og með í dag 7 mismunandi gerðir rafbíla, tengiltvinnbíla og tvinnbíla í boði í sinni vörulínu. Innan fimm ára mun Kia hafa 16 mismunandi gerðir rafbíla í sinni vörulínu. Umhverfissjónarmið voru höfð í huga og má nefna að öll raforkunotkun hússins er vottuð Græna Ljósinu frá Orkusölunni sem er staðfest sem endurnýjanleg með upprunavottorðum. Þá hafa Askja og Reykjavíkurborg gengið frá samkomulagi um tilraunaverkefni til 2ja ára um sérstaka settjörn sem staðsett verður í borgarlandinu neðan við húsið og er hugsuð til að tryggja að allt regnvatn sem fellur á bílastæði sé hreint áður en það fer aftur út í jarðveginn. Þetta er verkefni verður unnið í samvinnu Öskju og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Meðal spennandi nýjunga fyrir viðskiptavini eru bílaþrif, hjólbarðaþjónusta og hjólbarðahótel, hraðþjónusta, glerhúðunarmeðferð fyrir lakk og framrúðuskipti. Sérstök tilboð verða á nýjum bílum og þjónustu fyrir viðskiptavini í tengslum við opnunina.

,,Þetta nýja hús mun stórbæta aðstöðuna og þjónustuna fyrir viðskiptavini Kia og starfsfólk Öskju. Við í Öskju höfum því nú þrjá sýningarsali og getum sýnt fleiri Kia og Mercedes-Benz fólks- og atvinnubíla í aðskildum húsum. Þetta er orðið tímabært hjá okkur enda fyrirtækið stækkað undanfarin ár og árangur beggja okkar vörumerkja hefur verið góður" segir Jón Trausti.

Kia hefur verið eitt mest vaxandi bílamerkið á Íslandi síðustu ár og er nú þriðja árið í röð annað mest selda bílamerkið, þar sem markaðshlutdeild KIA var yfir 11%. Kia hefur því heldur betur stimplað sig inn hjá Íslendingum undanfarin ár, og hefur 7 ára verkskmiðjuábyrgð KIA þar haft mikið að segja. Að auki hefur Kia verið í efsta sæti í hinni virtu áreiðanleikakönnun JD Power síðustu fjögur ár sem mikill heiður. Þá hefur Kia einnig fengið fjölmörg alþjóðleg hönnunarverðlaun fyrir bíla sína undanfarin ár m.a. margoft hin eftirsóttu Red Dot verðlaun.