Kia Sportage

Kia Sportage fær hæstu einkunn fyrir öryggi

Nýr Kia Sportage hefur verið valinn „Öruggasti bíllinn" í sínum stærðarflokki af Umferðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, IIHS. Hann er þar með fimmti nýi bíllinn frá Kia sem IIHS gefur toppeinkunn fyrir öryggi. Hinir eru Carnival, Cerato, Soul og Sorento jeppinn. Sportage er nýkominn á markað í Bandaríkjunum í nýrri gerð og prófun IIHS ætti að verða honum gott vegarnesti á þessum harða samkeppnismarkaði. Bílaumboðið ASKJA, umboðsaðili Kia á Íslandi, mun kynna Sportage þegar líða tekur á haustið. Sportage fékk hæstu mögulega einkunn í árekstarprófun að framan, hliðarárekstrum og aftanákeyrslum sem og öryggi í veltu þar sem reynir á styrk þaksins. Í árekstrarprófuninni leggur IIHS mat á styrk yfirbyggingar og mælir nákvæmlega það hnjask sem árekstrarbrúður verða fyrir. Eingöngu bílar með stöðugleikastýringu eru gjaldgengir í prófunina. Framleiðsla á Kia Sportage fyrir Evrópumarkað hófst í júní. Bíllinn er gerbreyttur að utan frá fyrri gerð. Hann er mun rennilegri og sportlegri á að líta. Eins og allir aðrir gerðir Kia er Sportage með yfirgripsmikinn öryggisbúnað. Þar má nefna háþróaða öryggispúða fyrir ökumann og farþega í framsæti, öryggispúða í báðum framsætum, hliðaröryggispúða fyrir allt farþegarýmið, virka hnakkapúða, hemlalæsivörn, stöðugleikastýringu, rafeindastýrða hemlunarátaksstýringu, eftirlitskerfi með loftþrýstingi í hjólbörðum og BAS, sem er búnaður sem skynjar neyðarhemlun og eykur hemlunarátakið til muna. Allar gerðir Sportage eru með HAC og DBC. Fyrrnefndi búnaðurinn aðstoðar ökumann við að taka af stað í miklum halla og sá síðarnefndi stýrir hraða bílsins þegar ekið er niður mikinn halla þannig að ökumaðurinn getur einbeitt sér að því að stýra bílnum. Sportage er einnig fáanlegur með árekstrarvara að aftan sem gefur frá sér hljóðmerki þegar bíllinn nálgast fyrirstöðu þegar honum er bakkað. Ennfremur er hann fáanlegur með bakkmyndavél, svo eitthvað sé talið.