Kia Sorento

Besti jeppinn í Þýskalandi

Lesendur þýska bílatímaritsins AutoBild Allrad hafa valið nýjan Kia Sorento besta jeppann í sínum stærðarflokki. Alls tóku 116.336 lesendur þátt í valinu sem leiddi til þessarar niðurstöðu. Bílaumboðið ASKJA mun kynna nýjan Sorento hér á landi á næstu vikum en grunnverðið verður rétt um sex milljón krónur fyrir ódýrustu útfærslu bílsins. Nýr KIA Sorento hefur verið endurhannaður frá grunni. Dong-Cheol Seol, stjórnarformaður Kia Motors í Þýskalandi, sagði þegar hann tók við viðurkenningunni að hann fagnaði því að nýjar leiðir við útlitshönnun og sportlegt og kraftmikið útlit nýs Sorento tryggði honum áfram sömu vinsældir og forveranum. Sorento er fáanlegur bæði 5 og 7 manna. Það sem eflaust hefur gert útslagið er fullt hús stiga sem Sorento hlaut í öryggisprófun Euro NCAP og sjö ára ábyrgð bílsins frá framleiðanda. Staðalbúnaður í Sorento er rafeindastýrð stöðugleikastýring ásamt spyrnustýringu, hallastýringu, öryggispúðar að framan og hliðarpúðar að framan, loftpúðagardínur að framan og aftan, sætisbeltastrekkjarar, hleðslujafnarar og virkir hnakkapúðar í báðum framsætum. Kia kynnti í janúar á þessu ári að öllum nýjum Kia bílum sem seldir eru í Evrópu fylgir 7 ára ábyrgð (eða upp að 150.000 km akstri). Ábyrgðin nær yfir alla hluti bílsins, þar á meðal aflrásar. Nýr Sorento er ennfremur með 12 ára ábyrgð gagnvart gegnumtæringu á yfirbyggingu. Sorento er 4,69 m á lengd. Innanrýmið er ríflegt með sætum fyrir allt að sjö manns í þremur sætaröðum. Staðalbúnaður er m.a. loftfrískunarkerfi, hljómkerfi með sex hátölurum, rafstýrðar rúður að framan og aftan, rafstýrðir og upphitanlegir hliðarspeglar, fjarstýrðar samlæsingar og 17 tommu álfelgur. Bíllinn er boðinn með 2,2 lítra dísilvél með forþjöppu sem skilar 197 hestöflum og eyðir einungis 6,6 lítrum á hundraðið og með 174 hestafla, 2,4 lítra bensínvél með breytilegri stýringu á opnunartíma ventla. Sorento er búinn hátæknivæddri sex þrepa sjálfskiptingu en fæst líka með 6 gíra beinskiptingu.