Mikil söluaukning hjá Kia

Mikil söluaukning Kia á heimsvísu hefur víða vakið athygli og svo virðist sem þessi suður-kóreski bílaframleiðandi sé kominn á óstöðvandi skrið. Á árinu 2009, sem einkenndist almennt af miklum samdrætti í bílasölu á heimsvísu, jókst sala hjá Kia um rúm 20%. Í febrúarmánuði á þessu ári jókst sala á Kia á heimsvísu hins vegar um 39,5%, þar af nam aukningin tæpum 35% í Evrópu. Bílar fyrirtækisins fyrir Evrópumarkað eru framleiddir í Zilina í Slóvakíu en þróunar- og hönnunarstöðvar Kia í Evrópu eru í Frankfurt. Þessa miklu söluaukningu Kia má eflaust rekja til breyttrar hegðunar neytenda í kjölfar alþjóðlegs efnahagssamdráttar sem hefur leitt til þess að sala á ódýrari og sparneytnari gerðum bíla hefur aukist á kostnað dýrari og eyðslufrekari bíla. Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, umboðsaðila Kia á Íslandi, segir að það spili ekki síður stórt hlutverk í góðu gengi Kia að fyrirtækið hefur nýlega endurnýjað alla sína bílalínu og þess verði nú vart hér á landi á komandi vikum og mánuðum. Auk þess bjóði Kia einn bílaframleiðenda upp á sjö ára ábyrgð með öllum sínum bílum. Þá hafi bílar fyrirtækisins komið sérstaklega vel út úr almennum gæðaprófunum og nú síðast fékk nýr Sorento t.a.m. fullt hús stiga, eða fimm stjörnur, í Euro NCAP árekstrarprófuninni. Stórt og afdrifaríkt skref var stigið hjá Kia árið 2006 þegar einn áhrifamesti bílahönnuður heimsins, Peter Schreyer, gekk til liðs við fyrirtækið frá VW samstæðunni. Fyrir VW hannaði hann m.a. nýju Bjölluna og var yfirmaður hönnunar hjá Audi um sex ára skeið og þar liggja eftir hann bílar eins og A2 og TT. Með tilkomu Schreyers hefur orðið fagurfræðileg bylting í bílahönnun hjá Kia sem virðist hafa hitt í mark hjá bílkaupendum. Í maí kynnir Askja nýjustu gerðir Sorento jeppans. Nú þegar er endurhannaður Cee'd kominn í sýningarsal Öskju, umboðsaðila Kia á Íslandi, og í haust verður nýr og gerbreyttur Sportage jepplingur kynntur. Þessir bílar bera allir glögg merki um þá breytingu sem orðið hefur í hönnunarstefnu Kia.