Ný gerð KIA cee'd frumsýnd

Ný gerð Kia cee'd var frumsýnd á bílasýningunni í Frankfurt í vetur og er hann nú kominn í sölu hjá Bílaumboðinu Öskju, umboðsaðila Kia á Íslandi. Bíllinn hefur verið endurhannaður að öllu leyti og verður þess ekki síst vart í vandaðra efnisvali og fyrirmyndar frágangi. cee'd er söluhæsti bíll Kia í Evrópu. Hann hefur nú fengið alveg nýtt útlit sem yfirhönnuður Kia, Peter Schreyer, er ábyrgur fyrir. Schreyer var áður hönnuður hjá VW-samsteypunni og hannaði m.a. nýju Bjölluna. Auk nýs útlits býr nýr cee'd yfir fjölda endurbóta jafnt að utan- sem innanverðu, meiri staðalbúnað og tækninýjungar sem auka akstursánægjuna og draga úr eldsneytisnotkun. Koltvísýringslosun frá cee'd hefur minnkað um 5% að meðaltali yfir alla línuna og er komin niður í 110 gr/km. , en bílar sem gefa frá sér minni útblástur en 120 gr/km fá frítt í bílastæði í miðbæ Reykjavíkur í 90 mínutur í hvert skipti. Nýr cee'd Sporty Wagon er 25 mm lengri en forverinn og er með sterkari svip og kraftalegri ásýnd á veginum. Að innan er komið nýtt stýri og gírstöng, ný hljómtæki og miðjustokkur, tveggja svæða loftfrískunarkerfi og í mælaborði er rauð baklýsing. Stærsta tækninýjungin er svokallað ISG-kerfi sem dregur verulega úr eldsneytisnotkun bæði bensín- og dísilvéla cee'd. Hann virkar þannig að þegar bíllinn er stöðvaður, t.a.m. á rauðu ljósi, drepst á vélinni. Um leið og ökumaður stígur aftur á eldsneytisgjöfina fer vélin í gang á ný. Auk þess er cee'd kominn með brekkuhaldara inn í ESP-kerfið og nýjan ljósabúnað sem gefur frá sér meiri birtu. cee'd er m.a. fáanlegur sjálfskiptur og beinskiptur og meðal annars með 1,6 lítra dísilvél. Eins og aðrir bílar frá Kia er cee'd boðinn með 7 ára ábyrgð frá framleiðanda. Kia er eini bílaframleiðandinn í heiminum sem býður 7 ára ábyrgð með bílum sínum.