Kia Soul

Kia er að þróa rafútgáfu af Kia Soul

Kia er að þróa rafútgáfu af bílnum Soul og hefur staðfest að hann muni koma á götuna fjöldaframleiddur á seinni helmingi næsta árs. „Kia Soul EV“ verður fyrsti rafbíll og mengunarfríi bíll sem Kia framleiðir til útflutnings.

Við þróun og smíði bílsins mun Kia njóta reynslu sinnar af þróun og smíði Ray EV rafbílsins sem verið hefur á heimamarkaði bílsmiðsins í Suður-Kóreu. Gefið er upp að drægi Kia Soul rafbílsins verði rúmlega 200 kílómetrar á fullri rafhleðslu sem er með því besta sem þekkist í þessum stærðarflokki bíla, ef ekki það besta. 

Frumgerðarbílarnir sem brúkaðir eru í þróunarstarfinu er framdrifnir. Þeir eru byggðir á umbreyttum Kia Soul af árgerðinni 2014 og knúnir 81,4 kílóvattar rafmótor sem skilar 285 newtonmetra togi til hjólanna gegnum jafnhraða gíraniðurfærslubúnað. Þróunaraksturinn stendur nú yfir og fer fram í Kóreu, Evrópu og Norður-Ameríku.

Úr kyrrstöðu í 100 km/klst hraða er áætlað að Soul-rafbíllinn skili sér á innan við 12 sekúndum en hámarkshraði hans verður um 145 km. Í bílnum verður búnaður er endurnýtir hemlunarorku og skriðorku og skilar henni til rafgeymanna.

Hlaða má bílinn við venjulega heimilistaug og tekur fjórar til fimm stundir að fylla tóma geyma. Með 100 kílóvatta hleðslustaur tekur það verk aðeins 25 mínútur.

Í þágu öryggis gangandi vegfarenda verður Kia Soul rafbíllinn búinn svonefndu VESS-búnaði nokkurs konar hljóðgervil er sendir frá sér vélarhljóð til viðvörunar á undir 20 km/klst ferð og ætíð þegar bakkað er.