Nýr Kia cee'd

Önnur kynslóð Kia cee'd frumsýnd

Það stendur mikið til hjá Kia á alþjóðlegu bílasýningunni í Genf sem nú stendur yfir. Þar sýnir fyrirtækið fyrstu tvo Kia cee'd bílana úr annarri kynslóð. Um er að ræða fimm dyra hlaðbak og langbak sem báðir búa yfir kraftalegum línum og fáguðum formum. Báðir hafa þeir þroskast í formi og búa enn fremur yfir þeim góða orðstír fyrir gæði og endingu merkisins sem fyrri kynslóð aflaði honum. Þegar Kia cee'd kom á markað fyrst fyrir fimm árum gerði hann harða atlögu að rótgrónum evrópskum bílgerðum. Hann var jafnframt afar mikilvægur bíll í nýrri markaðssókn Kia í Evrópu. Það sem einkennir markaðinn í þeirri álfu er mun hærra hlutfall bíla í C-stærðarflokki en í öðrum heimshlutum. Þess vegna ákvað Kia að reisa verksmiðju í Evrópu til að framleiða bílinn sérstaklega fyrir Evrópubúa. Straumhvörf hafa orðið í útliti cee'd, sem núna státar meðal annars af nýju, djarfara og sterkara Kia merki á vélarhlífinni. „Kia cee’d á stóran þátt í velgengni okkar,“ segir Peter Schreyer, yfirhönnuður Kia. Schreyer veit hvað hann syngur því hann var áður aðalhönnuður hjá VW og Audi og hannaði m.a. Nýju Bjölluna, Audi TT og Audi A4. „Það var veruleg áskorun og mikil ábyrgð fólgin í því að betrumbæta bílinn. Hlaðbakurinn er fimm dyra fjölskyldubíll og þarf að hafa hlutlaust útlit sem hentar öllum, jafnt arkitektinum og póstdreifingarmanninum. Langbakurinn þarf sömuleiðis að uppfylla sértækar þarfir fyrir flutninga og skila eigendum sínum um leið góðri tilfinningu með stílhreinum og sérstökum formlínum.“ Bílarnir voru sem fyrr segir frumsýndir á bílasýningunni í Genf sem nú stendur yfir.