Kia Carens

Carens fær hámarks einkunn á öllum sviðum í prófun Euro NCAP.

Carens, nýi fjölnotabíllinn frá Kia, fær fullt hús stiga, 5 stjörnur, í einkunnargjöf Euro NCAP, leiðandi stofnunar á sviði umferðaröryggismála í Evrópu.

Kia Carens er annar af einungis tveimur bílum í flokki minni fjölnotabíla sem nú eru á markaði í Evrópu sem hefur fengið 5 stjörnur í árekstrarprófunum Euro NCAP. Kia Carens er fimm dyra fjölnotabíll með sætum fyrir fimm eða sjö farþega. Útkoma hans í prófuninni var einkar athyglisverð á sviði verndar fyrir fullorðna farþega, (94%), vernd fyrir barnunga farþega, (76%), vernd fyrir gangandi vegfarendur, (64%) og hvað varðar öryggisstoðkerfi, (81%).

„Allt frá upphafi þróunarferlis nýs Carens beindist sérfræðiþekking verkfræðinga Kia að því að skapa fjölnotabíl með allra sterkustu yfirbyggingu og yfirgripsmikilli öryggistækni til að verja ökumenn, fjölskyldur þeirra og vegfarendur í slysaaðstæðum,” segir Benny Oeyen, aðstoðarforstjóri markaðs- og framleiðsluáætlunardeildar Kia Motors í Evrópu.

„Á síðustu fimm árum hefur verið hert á prófunaraðferðum Euro NCAP með þeim afleiðingum að mun erfiðara er nú fyrir framleiðendur að ná hámarks útkomu í prófununum. Það er skýrt dæmi um staðfestu Kia á sviði öryggismála að enn á ný náum við toppeinkunn. Núna fyrir nýjan Carens, bíl sem höfðar sterkt til fjölskyldufólks sem er mikið á ferðinni og leitar jafnt að glæsilegu útliti og hagnýtu notagildi í sínum bíl,“ bætir Oeyen við.

Euro NCAP stofnunin gaf Carens hámarkseinkunn fyrir varnir gegn hliðarárekstrum, varnir fyrir 18 mánaða gömul börn, varnir gegn hálshnykkjum í framsætum og varnir gegn meiðslum á fótleggjum gangandi vegfarenda. Euro NCAP tók einnig með í reikninginn að nýr Carens er líka með áminningarbúnað fyrir sætisbelti í öllum sætum, breytilegan hraðatakmarkara og það að bíllinn er hannaður með tilliti til þess að auðvelt og fljótlegt er að koma fyrir öryggisbúnaði í barnasætum.

Staðalbúnaður í nýjum Kia Carens á öllum mörkuðum í Evrópu er meðal annars sex öryggispúðar (að framan, hliðarpúðar, loftpúðagardínur), áminningarkerfi fyrir sætisbelti, (framsæti, miðjusæti og aftursæti), ESC, (rafeindastýrð stöðugleikastýring), HAC, (brekkuvari), sem kemur í veg fyrir að bíllinn renni aftur á bak í brekkum, og ESS, (neyðarstöðvunarljós), sem blikkar hemlaljósunum við neyðarhemlun til viðvörunar fyrir aðra vegfarendur.

Með splunkunýjum Carens snýr Kia nú inn á einn harðasta samkeppnismarkaðinn í Evrópu. Carens er hannaður og smíðaður með það að markmiði að uppfylla þarfir og væntingar fjölskyldufólks með nútímalegan lífstíl. Hann státar af stórri, framhallandi framrúðu og rennilegu og straumlínulöguðu útliti, sem felur í sér mikið innanrými. Hann er boðinn fimm eða sjö sæta og val er um breitt úrval af þæginda- og öryggisbúnaði.

Nýr Kia Carens bætist nú í hóp sex annarra Kia bíla sem fengið hafa fimm stjörnur í árekstrarprófun Euro NCAP. Þessir Kia bílar eru cee’d, Rio, Venga, Soul, Sportage og Sorento.

Athugið:

Gerðir og búnaður sem fjallað er um hér að ofan eru fyrir evrópskan markað. Kia Motors í Evrópu er sölu-, markaðs- og þjónustuarmur Kia Motors Corporation. Höfuðstöðvarnar eru í Frankfurt í Þýskalandi og starfsemin nær til 30 markaðssvæða í Evrópu.